Útgáfu ,,Að búa til ofurlítinn skemmtigarð” eftir Einar E. Sæmundsen fagnað

Á dögunum var fagnað útgáfu bókarinnar ,,Að búa til ofurlítinn skemmtigarð.  Íslensk garðsaga – Landslagsarkitektúr til gagns og prýði” eftir Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt og einn af stofnendum Landmótunar. Þetta glæsilega rit hefur verið hugarfóstur Einars í áraraðir og ljóst er að vandað hefur verið til verks þar sem bókin er hin glæsilegasta.

Þetta er einstakt yfirlitsverk um sögu og þróun íslenskrar garðhönnunar eða landslagsarkitektúrs, og er umhverfismótunin þar sett í samhengi við rætur íslenskrar menningar og tengd alþjóðlegum straumum og stefnum. Fjallað er um sögu garða á Íslandi frá elstu tímum en einkum um tímabilið frá þéttbýlismyndun þegar almenningsgarðar og útivistarsvæði urðu hluti af skipulagsgerðinni. Höfundur gengur um ýmsa kunna garða og miður þekkta, og fjallar sérstaklega um feril tveggja frumkvöðla í stétt landslagsarkitekta, þeirra Jóns H. Björnssonar (í Alaska) og Reynis Vilhjálmssonar.

Við óskum Einari innilega til hamingju með þennan stóra áfanga.

 

Höfundurinn Einar E. Sæmundsen og einn af frumkvöðlum landslagsarkitektúrs á Íslandi Reynir Vilhjálmsson við útgáfu bókarinnar.

Landmótun fagnar 20 ára starfsafmæli með útgáfu bókar

Þann 15. september 2014 varð  Landmótun 20 ára. Landmótun hefur starfað sem ráðgjafastofa frá því að hún var stofnuð 1994 og verið í stöðugri þróun.  Stofan hefur ávallt leitast við að vera í fararbroddi við að færa út verksvið landslagsarkitektúrs og skipulagsfræða.

Á Landmótun er unnið á tveimur sviðum, skipulagi og hönnun auk þess sem stofan hefur unnið að mati á umhverfisáhrifum, sinnt eftirliti með framkvæmdum og unnið að kortagerð svo eitthvað sé nefnt. Á síðustu 20 árum hefur stofan  tekið þátt í fjölmörgum samkeppnum og margoft unnið til verðlauna.

Verkefni Landmótunar er að finna í öllum landshlutum á Íslandi auk þess sem fyrirtækið hefur unnið að verkefnum á Grænlandi, í Færeyjum og Noregi.

Af tilefni afmælisins gaf Landmótun út bókina “Að móta land í 20 ár” sem fór síðan í sölu í nokkrum verslunum Eymundson.

Skoða netútgáfu:  Að móta land í 20 ár.

 

 

 

Lækurinn á sýningu um allan heim

Lækurinn í Hafnarfirði - loftmynd

Íslensk samtímahönnun – Icelandic Contemporary Design

Sýningin Íslensk samtímahönnun – húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr opnaði fyrst á Listahátíð í Reykjavík á Kjarvalsstöðum í maí 2009. Síðan hefur sýningin verið sett upp í Ketilhúsinu á Akureyri, í Dansk Design Center í Danmörku, í Nordic Lighthouse í Shanghai í Kína, í Peking í 751, stærsta lista- og hönnunarhverfi borgarinnar, í Stokkhólmi á Stockholm Furniture Fair í febrúar 2011, á hönnunarvikunni í Tallin í september 2011 og lokaáfangastaður sýningarinnar er í Design Forum Finland 1. 12. 2011 – 8. 1. 2012

Á sýningunni eru verk frá mismunandi hönnuðum, þar á meðal í arkitektúr.  Lækurinn í Hafnarfirði er framlag Landmótunar á sýningunni.

Verkefnið Lækurinn fólst í hönnun á götu og gönguleið meðfram hluta af Hamarskotslæk í Hafnarfirði. Verkefnið er framhald af verðlaunatillögu að skóla- og leikskólasvæði við Hörðuvelli í Hafnarfirði sem hefur lengi verið útvistarvæði Hafnfirðinga, en að því vann Landmótun með Arkitektum Bergstaðastræti 10a. Eitt helsta einkenni Hafnafjarðarbæjar er náttúrulegt umhverfi með hraunkömbum inn á milli húsa, nálægð við höfnina og sjóinn og staðsetning Hamarskotslækjarins í bæjarmyndinni. Í verkefninu var tekið mið af þessum þáttum og unnið markvisst með íslensk efni svo sem hraun í hlöðnum veggjum og grágrýti í lækjarbökkum og fossaþrepum. Lögð var áhersla á gönguleið meðfram lækjarbakkanum þar sem hægt er að njóta útiveru og tylla sér niður á bekki. Landmótun tók jafnfram þátt í hönnun og skipulagi nokkurra aðliggjandi svæða.  Hönnun og framkvæmdir fóru fram á tímabilinu 2001–2008. Aðalhönnuðir verksins voru landslagsarkitektarnir Ingibjörg Kristjánsdóttir á fyrri hluta og Áslaug Traustadóttir á seinni hluta. Aðrir sem komu að verkinu að hálfu Landmótunar voru landslagsarkitektarnir Hermann G. Gunnlaugsson, Samson B. Harðarson og Þuríður R. Stefánsdóttir og tækniteiknararnir Helgi Már Hannesson og Erla Huld Viðarsdóttir.

Lækurinn í Hafnarfirði - loftmynd

Lækurinn í Hafnarfirði

Verkefnið Lækurinn er sett fram sem uppdráttur ofaná loftmynd frá Loftmyndum ehf ásamt ljósmyndum teknum af Ingvari Högna Ragnarssyni ljósmyndara

Lesa meira:  Hönnunarmiðstöð Íslands, frétt af sýningunni.

Bókaútgáfan Crymogea : Íslensk samtímahönnun  í ritstjórn Elísabet V. Ingvarsdóttir sýningarstjóra.   Bókin er einnig til á ensku:  Icelandic Contemporary Design.