Byggingalistasaga Íslands

Pistill eftir Einar E. Sæmundssen landslagsarkitekt FÍLA. 
Textinn byrtist fyrst á bloggsíðunni Arkitektúr, skipulag og staðarprýði . 27. september, 2011.

Það  fæddist hugmynd  í kolli mínum fyrir framan skjáinn að horfa á Kiljuna í síðustu viku þegar Listasaga Íslands var kynnt og hefur ekki vikið frá mér síðan.  Stór  askja með 5 bókum sem spanna mismunandi tímabil myndlistarsögu okkar og þá vaknaði spurningin; hvar er Byggingarlistasaga Íslands?

Er ekki  komið að því að bókaútgefendur, fagstéttir,  safnamenn og sagnfræðigrúskara að leggja af stað í nýjan leiðangur og gera Byggingarlistasögu Íslands jafn góð skil?

Söguna um  það, hvernig Íslendingar hafa komið sér fyrir á Íslandi (áhersla t.d. á sl. 200 ár).  Byggt yfir sig hús til margvíslegra nota til að búa í og sinna daglegu lífi.  Ennfremur hús  til þess að þjóna samfélaginu skólahús, sjúkrahús, kirkjur og atvinnuhúsnæði.  En einnig hvernig Íslendingar hafa innréttað sig í húsunum eftir tíðaranda, notagildi og tískustefnum og síðast en ekki síst hvernig Íslendingar hafa mótað nánasta umhverfi sitt garðinn til yndis og nytja. Einnig skipulagssögu byggða.

Þegar þessir hversdagslegu þættir eru skoðaðir  rennur upp fyrir manni að þessi samfléttun  lífs okkar og barátta við óblíð náttúruöfl hefur aldrei verið skráð á  tímaás sem saga húsnæðis, húsa og umhverfis hvað þá sett í samhengi við aðrar listir.

Getur ekki orðið til list úr aðlögun mannsins að náttúruröflum, byggingarlist sem skapar okkur sérstöðu, ekki bara í gamalli fortíð okkar? Höfum við ekki tekið sérstöðuna með okkur inn í nútímann, lært af reynslunni?  Svo má spyrja hvað er list?   Sprettur listsköpun bara úr jarðvegi auðs og velmegunar?     Getur list ekki sprottið af nægjusemi og útsjónarsemi og haft áhrif á og mótað okkur?

Af hverju er saga bygginga og manngerðs umhverfis óskrifuð?

Það sem er einkennir byggingarsögu Íslands er að það hefur ávallt verið mikil áskorun að reyna nýja hluti við þau óblíðu ytri náttúruskilyrði sem við búum við.  Í  þeirri staðreynd er fólgin mikil sérstaða sem þarf að halda á lofti.  Aðstæður  sem hafa haft áhrif og mótað hús, híbýli og umhverfi.

Nú á háskólasamfélagið, faghóparnir og ríkið að starta langhlaupi sem endar með nýjum bókakassa með Byggingarlistasögu Íslands.  Fyrst þarf að móta ramma fyrir verkið og ákveða hverjum tökum það verði tekið.  Einnig þurfa fagfélög innan arkitektúrs að tilnefna í hópinn faglega fulltrúa.  Stefna að því að skrifa nokkrar bækur sem næðu yfir allt svið þeirrar byggingarlistasögu, sem ég tel að vanti algjörlega og  er mestur fengur í.  Til nota við kynningu á Íslenskri menningu og fræðslu um land og þjóð en ekki síður fyrir unga Íslendinga á öllum skólastigum.

Mikil grunnvinna liggur fyrir, m.a. í ritum Harðar Ágústssonar, Hjörleifs Stefánssonar og Péturs H. Ármannssonar,  safnaheimsins ofl. á sviði byggingarsögunnar.  Kannski er minna til um  þróun húsgagna og híbýlahátta.  Garðsaga Íslands hefur verið kennd við Umhverfisskipulagsdeil LBHÍ á Hvanneyri s.l 10 ár og liggur fyrir kennsluhefti og ýtarlegt kennsluefni.

Fyrir réttum 73 árum gaf Mál og menning út ritið „Húsakostur og híbýlahættir“.  Þar birtust níu ritgerðir sem ætlaðar voru til þess,  eins og segir í lokaritgerðinni eftir Halldór Kiljan Laxness, að  „ef ritgerðir þær sem hér birtast mættu verða til þess að fleiri en áður fengju augun opin fyrir híbýlaprýði og yrðu til þess að segja drabbaranáttúrunni stríð á hendur þætti M og M vel hafa tekist til“.  Hópur ungra arkitekta og húsgagnateiknara, eins og þeir eru titlaðir, auk Laxness rita bókina.

Þarf ekki núna að kveða niður drabbaranáttúruna í þeim skilningi að sögu þessara merku menningarþátta Íslandssögunnar, Byggingarlistasaga verði sett í það kastljós sem hún verðskuldar?

Nú er komið að því að hefjast handa.

EES

Garður við Alþingishúsið
Hús eftir Högnu Sigurðardóttur arkitekt.
Teikning eftir Skarphéðinn Jóhannsson úr 1. verðlaunatillögu í samkeppni um innréttingu sveitaheimila frá 1939.

Efst er mynd eftir Louisu Mattíasdóttur sem heitir „Sjálfsmynd í landslaginu“. Myndin sýnir himinn, haf, grundir, fjöll og konu ásamt fé á beit.  Allt baðað í íslenskri birtu með íslenskum litum.

Manngert landslag – til gagns og gamans

Þessi texti eftir Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt er skrifaður í tengslum við sýninguna ManMadeEnviroment sem opnuð var í Osló haustið 2010 og hefur verið sýnd víða um Evrópu. Umfjöllunarefni Einars á fullt erindi í umræðu um náttúru og landslag.  Textinn byrtist á bloggsíðunni Arkitektúr, skipulag og staðarprýði með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

Fjárrétt í Skagafirði, manngert umhverfi og náttúra fléttast saman

 

MANNGERT LANDSLAG – TIL GAGNS OG GAMANS

Einkenni  umræðu um stöðu landslagsarkitektúrs á Íslandi er að manngert umhverfi – LANDSLAG – stendur í miklum skugga af ímynd hinnar ósnortnu náttúrur landsins.   Landslag/náttúra í hug flestra Íslendinga er eitt og það sama.

Ferðaþjónustuaðilar keppast við að halda þessari ímynd við og markaðssetja landið sem ósnorna náttúru og landslag. Útlendingum er jafnvel selt Bláalónið sem íslensk náttúra.  Manngert landslag er af þeim sem móta viðhorf ekki hátt skrifað.  Það sama á við um þá sem hæst hafa um umhverfisvernd.  Opinber byggingarlistastefna var gefin út af Menntamálaráðuneytinu árið 2007 í samstarfi við Arkitektafélags Íslands.  Landslagsarkitektar voru ekki kallaðir að því borði.  Það er því engin opinber stefna um mótun landslags/manngerðs umhverfis.  Um  „Sambýli manns og náttúru“ segir:  „Mikilvægt er að gæta að því landslagi sem ekki hefur verið numið undir manngert umhverfi.  Með vaxandi ferðamennsku og útivist er aðkallandi að móta stefnu gagnvart mannvirkjagerð á lítt snortnum eða óspjölluðum stöðum utan hefðbundinnar byggðar.  Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á því hvernig hið manngerða umhverfi þróast og vex og eru í einstakri stöðu til að hafa áhrif til góðs og leggja áherslu á tillitssemi við náttúrulegt landslag og viðkvæma staði.”   Stefnan er í fullu samræmi við hugmyndir okkar um landslag/náttúru. Einskonar EKKI MÁ móta umhverfið/landslagið.  Mætti lesa að landslagið/ náttúruna mótuð til gagns og gamans sé eyðilegging.

Fjölmiðlaumræða um mannvirki  á Íslandi ber þess oft merki þess að hún er hvorki fagleg eða byggð á þekkingu. Þegar fjallað er um nýbyggingar þá er nærri því regla að arkitekts, landslagsarkitekts eða annara hönnuða sé ekki getið.  Hinsvegar fjallað ítarlega um hver var byggingameistari, múrari og eða pípulagningamaður os.frv. Íslendingar sem hafa ríka bókmenntahefð og bera mikla virðingu fyrir höfundarrétti í bókmenntum.  Ef slík fjölmiðlaumræða yrði heimfærð upp á bókaútgáfu og ekki væri fjallað um höfund bókarinnar heldur um hver hafi prentað, litgreint eða ljósmyndað, þá myndi jafnvel almenningur bregðast hart við.

Félag ísl. Landslagsarkitekta hefur látið þýða “ Evrópski landslagssamningurinn”,  samning sem skilgreinir hugtakið LANDSLAG.  Landslagsarkitektar glöddust því þegar í stjórnarsamningi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms vorið 2009 var gefið fyrirheit um að samningurinn verði staðfestur af íslenskum yfirvöldum.  Túlkun samningsins nær bæði til landslags/náttúru sem er ósnortin einnig til landslags sem maðurinn hefur mótað og segir “ „Landslag“ merkir svæði sem fólk sér og fengið hefur ásýnd og einkenni vegna samspils náttúrulegra og/eða mannlegra þátta.”   Vonir standa til að skilgreing samningsins rati í íslensk lög þegar hann hefur verið innleiddur.

Á afmælisári  FÍLA í maí 2008  var í samstarfi Listasafn Reykjavíkur og styrktaraðila ráðist í að fá landslagsarkitektinn og listamanninn Matrha Swartz frá Bandaríkjunum  með sýningu á Listahátíð sem hét “alimlunat /I hate nature”.           Í sýningarskrá eru hugleiðingar hennar um viðhorf Bandaríkjamanna til náttúru og landslags. “ Bandaríkjamenn telja landslag og NÁTTÚRU vera eitt og hið sama.  Afleiðingarnar eru sú skoðun að öllu tilbúnu landslagi beri siðferðileg skylda til að sýna NÁTTÚRUNA (svo framarlega sem trén þvælast ekki fyrir þegar horft er á húsið). Flestir Bandaríkjamenn trúa því að „gott landslag sé landslag þar sem mannshöndin er hvergi sýnileg“.

Það má fá mosa til að vaxa á steyptumvegg og tókst vel á Ráðhúsinu í Reykjavík einnig klæða byggingar með stuðlabergi eins og Hof á Akureyri. Jafnvel móta hugmynd af stórvaxinni nútímabyggingu úr steinsteypu í Miðborginni og setja síðan jarðvegshól upp á þak og skreyta hann með nokkrum (torf)húsum má kalla STEF sem sótt eru í náttúruna/umhverfið en umbreytt við nýja notkun.

Að mótað umhverfi er frá sjónarhóli landslagsarkitekts meir en náttúruábreiður. Byggingarefni landslagsarkitekta er að hluta lifandi og tíminn er þáttakandi í mótun þess frá upphafi.

-EES

Kópavogstjörn