Steinbryggjan í Reykjavík

Mynd 1. Gamla steinbryggjan nýtur sín vel í nýjum ramma sem Landmótun hannaði utan um hana.

Þann 5. september s.l. afhjúpaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ljóðlínur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur á nýju torgi við gömlu steinbryggjuna í miðbæ Reykjavíkur en torgið var hannað á Landmótun. Torgið er á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis og fær nafn sitt frá bryggjunni sjálfri og heitir einfaldlega Steinbryggja. Ljóðlínurnar á torginu eru úr ljóðinu „Vetur“ sem fyrst birtist í bók Vilborgar Dvergliljur árið 1968. Vilborg var viðstödd  og við þetta ánægjulega tilefni ræddu skáldin Gerður Kristný og Sunna Dís Másdóttir um skáldskap Vilborgar og fluttu ljóð eftir hana. Reykjavík bókmenntaborg UNESCO stendur fyrir ljóðlínunum í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar og er Vilborg fyrsta skáldið sem heiðrað er með þessum hætti.  Á Steinbryggju geta vegfarendur nú sest á skáldabekk, skannað rafrænan kóða með snjallsíma og hlustað á Vilborgu sjálfa fara með ljóðið „Vetur“ og nokkur önnur ljóð auk þess sem hægt er að hlusta á sömu ljóð lesin á ensku.

 

Mynd 2. Sunna Dís Másdóttir skáld flytur tölu við ljóðlínur Vilborgar, mynd fengin að láni hjá Reykjavíkurborg.
Mynd3. Ljóðlínur Vilborgar.

Steinbryggjan var byggð árið 1884 og er fyrsta bryggjan í eigu Reykvíkinga og því merk í sögu borgarinnar. Fyrir þann tíma einkenndu trébryggjur strandlengjuna og voru þær allar í eigu kaupmanna. Steinbryggjan var fyrsti viðkomustaður margra gesta borgarinnar, svo sem þeirra Friðriks VIII sem steig á land árið 1907 og Kristjáns X sem kom til Reykjavíkur árið 1921. Árið 1940 var fyllt yfir bryggjuna og hvarf hún þar með sjónum þar til núna.

Mynd 4. Bæjarbryggjan um 1937.
Mynd 5. Hernámslið þann 17 .maí 1940, eftir að hafist var handa við að fylla yfir Bæjarbryggjuna.

Torgið Steinbryggjan rammar inn sýnlegan hluta gömlu steinbryggjunar, við hönnun umhverfisins við bryggjuna var horft á  tengingu við sjó og bryggjulíf, torgstemningu og notagildi. Lögð var áhersla á gott gönguflæði allt í kringum bryggjuna og tengingar við aðliggjandi götur og torg. Staðurinn er einnig sérlega sólríkur og skjólgóður í góðum tengslum við bæjarlífið í kvosinni og á höfninni.

Nýja torgið Steinbryggjan tengir saman fortíð og nútíð, miðborg og höfn, eldri götur og nýjar. Steinbryggjan er í eigu Reykjavíkurborgar og býður íbúa og gesti velkomna án allra kvaða líkt og Bæjarbryggjan gerði á sínum tíma. Hönnun hins nýja torgs var í höndum Landmótunar og lýsing í höndum Mannvits. Unnið var með efni sem tengjast hafinu en setþrep og tröppur eru til að mynda úr bryggjutimbri og grágrýti notað í kanta og þrep. Sögu bryggjunnar verða gerð skil á handriði sem liggur meðfram tollhúsinu og verður sú vinna í höndum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Mósaíktjörn á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði – forkynning


Á árunum 2005-2008 vann Landmótun að hönnun nánasta umhverfis nýbygginga á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði. Húsin risu og lokið var við að ganga frá umhverfinu í megin atriðum, en vegna utankomandi aðstæðna varð að fresta því að ljúka frágangi við tjörn á lóðinni.
Á undirbúningstíma verksins vann Einar Birgisson landslagsarkitekt að hönnun svæðisins sem starfsmaður Landmótunar. Hann sá að ýmsir möguleikar gætu falist í því að leggja flísalistaverk í botn tjarnarinnar sem liggur á milli húsanna. Einar er hugmyndaríkur og góður teiknari og gerði mynd með ýmsum sjávardýrum fyrir íbúa að njóta frá íbúðum sínum og sem gæti einnig örvað börn að leik í og við tjörnina.
Nú hillir undir verklok við frágang lóðarinnar á Norðurbakka 1-3. Veðurblíðan í haust var nýtt til að leggja mósaíkmyndina í botn tjarnarinnar en hún er 60m x 4m að stærð eða 240 fermetrar. Vinna við lokafrágang, eins og að tengja vatn í tjörnina og ganga frá göngubrúm, mun fara fram í vetur og er formleg opnun svæðisins áætluð á komandi vori.
Arkitektar bygginga voru Arkþing, landslagsarkitektar Landmótun og byggingarverktaki ATAFL í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Þegar kom að mósaíkflísum var leitað til Víddar ehf í Kópavogi, sem sá um að koma á sambandi við ítalskan flísaframleiðanda, CE.SI. sem er staðsettur norðan við Mílanó.
Höfundur mósaíkmyndarinnar, Einar Birgisson landslagsarkitekt, býr nú og starfar í Þrándheimi í Noregi.
Ítarlegri kynning á verkefninu í heild bíður opnunar í vor.

Hringtorg við Varmá í Mosfellsbæ

Staðsetning: Mosfellsbær, Vesturlandsvegur við Varmá.
Notkun: Hringtorg
Landslagsarkitektar  Landmótun:  Áslaug Traustadóttir, Þórhildur Þórhallsdóttir
Verkkaupi:  Mosfellsbær / Vegagerðin
Hönnunar- og verktími:  2011
Stærð: um 1.000 m²

Hönnun á yfirborðsfrágangi í miðju hringtorgs. Unnið fyrir Mosfellsbæ í samvinnu við Vegagerðina.HG1102_Hringtorg

Flugmynd, byrt á heimsíðu Mosfellings júlí 2015Flugmynd af hringtorginu byrtist á facebooksíðu Mosfellings í júlí 2015.