Landmótun 1. verðlaun í hugmyndasamkeppni Ásabyggð á Ásbrú

Landmótun 1. verðlaun í hugmyndasamkeppni Ásabyggð á Ásbrú

Tillaga Landmótunar ásamt A2F og Baark Ásbrú – Hlekkur á milli heima hlaut  1. verðlaun í hugmyndasamkeppni um Ásabyggð á Ásbrú. Félagið Háskólavellir í samvinnu við Arkitektafélag Íslands efndu til samkeppninnar um breytt skipulag og nýtt heildaryfirbragð byggðar og bygginga á íbúðasvæði félagsins að Ásbrú í Reykjanesbæ.

Ásbrú þjónaði eitt sinn því hlutverki að hýsa starfsfólk bandarísku herstöðvarinnar og fjölskyldur þeirra en í dag er þar öflugt samfélag frumkvöðla, fræða og atvinnulífs. Meirihluti íbúa eru námsmenn og fjölskyldur þeirra. Aðalmarkmið vinnings tillögunnar  er að efla það samfélag sem fyrir er og skapa því nýja ímynd með því að:

  • Skapa heildstæða, vistvæna og sterka byggð.
  • Styrkja miðjuna og tengja íbúðakjarnana tvo sem í dag eru að mörgu leyti aðskildir.
  • Bjóða upp á fjölbreytileika í búsetumöguleikum fyrir jafnt unga sem aldna, sem og mismunandi gerðir fjölskyldna.
  • Hvetja til útiveru með bættri aðstöðu og aðlaðandi útisvæði, bæði einkagarða og almenningssvæða.
  • Gera gangandi og hjólandi hærra undir höfði með því að breikka núverandi stíga og bæta við nýjum göngu- og hjólastígum.
  • Bæta yfirbragð gatna, s.s. með hellulögn, fallegum götubúnaði og trjáröðum.
  • Byggja ný mannvirki sem styrkja miðjuna.

Bæjartorg

Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir meðal annars „Tillagan uppfyllir ágætlega markmið sín í að styrkja miðjuna og tengja saman þá tvo íbúðakjarna á svæðinu sem í dag eru nokkuð aðskildir. Í gegnum svæðið gengur grænt belti sem er vel til þess fallið að skapa ramma utan um mannlíf og vera að auki vistvæn samgönguleið fyrir gangandi og hjólandi“.

Hér fyrir neðan má skoða uppdrátt og greinargerð.