Á nýju ári fékk Landmótun endurnýjun á umhverfisstjórnunarkerfi sínu ÍST-14001 sem gildir til ársins 2022.

Kerfið er alþjóðlegur staðall sem lýsir því hvernig koma megi á virkri umhverfisstjórnun í hvaða rekstri sem er. Kerfið felur meðal annars í sér betri stýringu umhverfismála en Landmótun vinnur stöðugt að því að minnka umhverfisáhrif frá allri starfsemi sinni, hvort sem er í innra starfi eða í verkefnum stofunnar.

Með innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfisins hefur stofan á þessum árum haldið grænt bókhald og þar með fylgst með grænum lykiltölum og sett sér árlega markmið og aðgerðaráætlun um þýðingarmestu umhverfisþætti.

Margt hefur áunnist á þessum árum en talsverður hluti starfsmanna er með samgöngusamning, allsherjar flokkun fer fram á stofunni og við innkaup er ávallt horft til þess að keyptar séu umhverfisvottaðar vörur. Skemmtilegur afrakstur aukinnar flokkunar er jarðgerð sem fram fer á stofunni þar sem lífrænn úrgangur er notaður í moltuframleiðslu og hafa nokkrir starfsmenn notið góðs af því og notað næringarríka moltu í beðin heima fyrir.

Árangur í umhverfisstjórnun sl. ára hefur því leitt til bættrar umhverfisvitundar á öllum sviðum og er um leið hvatning til frekari dáða á næstu árum.