- Heiti verks: Dalskóli leik- og grunnskólalóð
- Hönnuðir: Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Þórhildur Þórhallsdóttir
- Verkkaupi: Reykjavík
- Framkvæmdaraðili: Garðvélar
- Hannað: 2015-2017
- Framkvæmt: 2016-2017
- Sveitarfélag: Reykjavík
- Samstarfsaðilar: VA-Arkitektar, VSÓ ráðgjöf
Árið 2014 hlaut tillaga VA Arkitekta ásamt Landmótun og verkfræðistofunni Eflu fyrstu verðlaun í tveggja þrepa hönnunarsamkeppni á vegum Reykjavíkurborgar og AÍ um samþættan leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttahús í Úlfarsárdal. Fyrsti áfangi lóðaframkvæmda er fyrir elsta stig leikskólans.
Skólinn liggur meðfram Úlfarsbraut og í lóðinni er mikill hæðarmunur sem unnið hefur verið með til að tryggja aðgengi allra um svæðið. Í hönnun var lögð áhersla á tengingu skólalóðarinnar við dalinn, þar sem leitast var við að mynda mjúk skil á milli lóðar og náttúrunnar. Unnið er með blágrænar ofanvatnslausnir og yfirborðsvatni safnað saman og veitt út í núverandi votlendi neðan lóðar. Með markvissri gróðursetningu er leitast við að fá náttúruna til að fljóta inn í jaðra lóðarinnar en næst byggingunni eru harðir fletir. Setstallar úr lerki sunnan við bygginguna taka upp hæðarmun í lóð og mynda í senn áhorfendapalla, dvalarsvæði og tækifæri til ýmissa leikja. Stígar um lóðina skipta svæðinu upp í mismunandi rými með leikmöguleikum, með áherslu á frjálsan leik í jaðrinum.