Þann 8. mars 2011 staðfesti umhverfisráðherra Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagastrandar 2010-2022. Aðalskipulagið var unnið af Landmótun fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd og hófst vinna við það í febrúar 2008 þegar haldinn var sameiginlegur fundur með sveitarstjórn og nefndum sveitarfélagsins. Þar kynntu skipulagsráðgjafar tillögu að verk- og tímaætlun og aðferðafræði við markmiðssetningu fyrir skipulagsvinnunna.
Meginmarkmið fyrir Aðalskipulag Skagastrandar 2010-2022 miðast við að sjá fyrir nægu landrými fyrir mismunandi starfsemi á skipulagstímabilinu. Skipulagið hefur jafnframt það markmið að sporna við neikvæðri íbúaþróun með því að búa enn frekar í haginn fyrir fjölbreytt og gott mannlíf og að efla og rækta þá góðu eiginleika sem fylgja búsetu í litlu samfélagi. Markmið skipulagsins er ennfremur að tryggja góðar aðstæður fyrir atvinnulíf, m.a. með nægu framboði lóða.

Fyrsti íbúafundur í tengslum við aðalskipulagsgerðina var haldinn 7. maí 2008. Hann sameinaði umræður vegna vinnu við aðalskipulag sveitarfélagsins og Staðardagskrár 21. Rædd voru viðhorf íbúa til skipulagsgerðarinnar og Staðardagskrá 21 og safnað hugmyndum til stefnumótunar. Afrakstur fundarins var nýttur til samþættrar stefnumörkunar fyrir aðalskipulagið og Staðardagskrá 21.
Annar íbúafundur um tillögur að aðalskipulagi og Staðardagskrá 21 var haldinn 18. mars 2009. Kynnt voru drög að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild og þéttbýli á Skagaströnd og matslýsing aðalskipulagsins. Ennfremur voru kynntar tillögur að málaflokkum Staðardagskrár og verkefnum innan þeirra. Aðal tilgangur fundarins var að leita eftir ábendingum og athugasemdum og gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum og tillögum sem snerta aðalskipulagið og Staðardagskrána.
Þriðji íbúafundurinn var haldinn 1. febrúar 2010. Þar var kynnt tillaga að landnotkun fyrir sveitarfélagið í heild og þéttbýlið á Skagaströnd og auk þess umhverfisskýrsla aðalskipulagsins. Megintilgangur fundarins var að gefa íbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum áður en gengið yrði frá aðalskipulagstillögunni til auglýsingar.

Að hálfu Landmótunar var skipulagsvinnan í höndum Yngvi Þórs Loftssonar, Óskar Arnar Gunnarssonar og Margrétar Ólafsdóttur og Valdimar Harðarson landslagsarkitekt vann við forsenduöflun í byrjun verksins.
Magnús B. Jónsson sveitarstjóri fylgdi eftir skipulagsvinnunni og var tengiliður við Landmótun.

Skoða uppdrætti: Skagaströnd