Þessi texti er eftir Yngva Þór Loftsson landslagsarkitekt og er úr fyrirlestri sem hann hélt í október 2011 á málþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um sjálfbær sveitarfélög.

Vinna Landmótunar við aðalskipulag fyrir Blönduósbæ, Húnavatnshrepp og sveitarfélagið Skagaströnd hófst  í febrúar 2008.  Í framhaldinu ákváðu sveitarfélögin að taka þátt í vinnu við Staðardagskrá 21 sem tengdist fámennisverkefni sem umhverfis- og iðnaðarráðuneytin fjármögnuðu.

Í flestum atriðum er verið að taka á svipuðum þáttum í aðalskipulagi og Staðardagskrá 21, um er að ræða stefnumótun sveitarfélags sem miðar að því að gera samfélagið enn betra fyrir íbúa og umhverfi.

Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni jafnframt ætlað að taka tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta og því er hér fyrst og fremst um að ræða velferðaráætlun.

Sveitarfélögum er skylt að vinna aðalskipulag fyrir allt land innan marka sveitarfélagsins. Samkvæmt skipulagslögum skal hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við mótun aðalskipulags sem er sama grunnatriði og er að baki Staðardagskrá 21.

Í því ljósi ákváðu sveitarstjórnir að taka þátt í tilraunaverkefni með Landsskrifstofu Staðardagskrár 21. Þar var unnið að samþættingu þessara tveggja áætlana í eina heildstæða áætlun fyrir sveitarfélagið.

Við undirbúning þessarar áætlunar voru tvær nefndir á vegum sveitarfélaganna sem leiddu þetta starf. Annars vegar var sérstök nefnd á vegum sveitarfélagsins sem horfði á áætlunina út frá sjónarhorni Staðardagskrár 21. Hins vegar var skipulagsnefnd sem leit á þann hluta áætlunarinnar sem snéri að skipulagsmálum. Síðan var þessi vinna samþætt eins og kostur var og aðstoðuðu ráðgjafar sveitarfélagsins við þá vinnu. Fyrsti íbúafundir vegna aðalskipulagsins sameinuðu umræður vegna vinnu við aðalskipulag og Staðardagskrá 21. Rædd voru viðhorf íbúa til skipulagsgerðarinnar og Staðardagskrá 21 og safnað hugmyndum til stefnumótunar út frá eftirfarandi þáttum:

o   íbúar og atvinnumál

o   umhverfi, byggð (dreifbýli og þéttbýli)

o   samgöngu og tæknimál

o   félags- og fræðslumál.

Afraksturinn var síðan nýttur til sameiginlegrar stefnumörkunar fyrir aðalskipulagið og Staðardagskrá 21.  Niðurstaða vinnunnar var sett fram í sameiginlegri greinargerð þannig að framsetning stefnumörkunar yrði skýrari og einfaldari.

Sú nefnd sveitarfélagsins sem fjallaði um Staðardagskrána, valdi þá málaflokka sem henni þótti brýnt að taka sérstaklega fyrir í áætlunargerðinni og var þar um að ræða jafnt efnahagslega,

félagslega og umhverfislega þætti. Jafnframt var stuðst við þau atriði sem komu fram hjá íbúum sveitarfélagsins á þeim kynningarfundi sem haldinn var í upphafi ferlisins.

Í mörgum tilfellum tengjast þau verkefni sem þarna komu fram, einhverjum af þeim landnotkunarflokkum sem teknir eru fyrir á skipulagsuppdrætti og er fjallað um þau í skipulagsgreinargerðinni, undir hverjum landnotkunarflokk fyrir sig.

Skýringarmynd um samþættingu aðalskipulags og Staðardagskrár 21.


Nokkrir málaflokkar Staðardagskrár falla ekki undir landnotkunarflokka aðalskipulagsins og því er fjallað sérstaklega um þá.  Þar er um að ræða almenna stefnumörkun sveitarfélagsins varðandi málefni barna og unglinga, umhverfisfræðslu, atvinnulíf, auðlindanotkun og stofnanir sveitarfélagsins. Þegar um er að ræða verkefni í þessum málaflokkum sem geta átt heima í tengslum við einstaka landnotkunarflokka, þá voru verkefnin tilgreind þar, en ekki í undirköflum.

Eftirfarandi er dæmi um mismunandi áherslur um málaflokka:

Markmið í Staðardagskrá21 um drykkjarvatn

o   Allir íbúar hafi aðgang að góðu vatni allt árið um kring.

Landnotkun í aðalskipulagi fyrir verndarsvæði vegna neysluvatns

o   Að skilgreina og afmarka vatnsverndarsvæði

o   Setja reglur um takmarkanir á landnotkun og framkvæmdum á verndarsvæðum.

 

 

Eftirfarandi eru minnispunktar um kosti, galla og niðurstöðu þessa tilraunaverkefnis um samþættingu aðalskipulags og staðardagskrár 21:

 

Kostir við samþættingu

o   stefnumörkun verður markvissari og dýpri

o   fjölbreyttari málaflokkar koma báðum áætlunum til góða

o   sveitarfélögin hafa eina sameiginlega áætlun þannig að mismunandi málaflokkar eru skoðaðir í samhengi

o   samnýting fundarstaða og fundarferða sem er fjárhagslega hagkvæmara í alla staði

o   skýrari vöktun í SD21 sem kemur báðum til nota

o   aðkoma almennings er grundvallarþáttur í báðum áætlunum

o   samþætting ASK og SD21 auðveldar að mæla þróun sveitarfélagsins

 

Gallar við samþættingu

o   kallar á önnur vinnubrögð og tillit mismunandi áætlana við fyrstu samþættinguna

o   sumir málaflokkar eru ósamræmanlegir og voru því aðskildir í áætluninni

o   eykur flækjustig við innri samræmingu áætlananna.

 

Heildarniðurstaða

o   samþætting ASK og SD21 kemur báðum áætlunum til góða

o   styrkir heildarniðurstöðuna þar sem sjálfbær þróun er leiðarljós beggja áætlananna

o   með sjálfbærri þróun eru tengslin á milli hagrænnar þróunar, félagslegs jafnréttis og umhverfisverndar gerð gegnsæ

o   lýðræðið er styrkt með þátttöku  almennings

o   ákvörðunartaka markvissari og viðhorf og hagsmunir almennings eru virtir

o   framsetning stefnumörkunar verður skýrari og einfaldari

o   auðveldar sveitarstjórnum ákvörðunartöku og eftirfylgni að hafa eitt sameinað skjal

o   staðardagkrá 21 fær meira vægi þar sem aðalskipulag sveitarfélaga er staðfest af Skipulagsstofnun og er bundið af skipulagslögum og reglugerð.