JANÚAR: MIÐHÁLENDI ÍSLANDS

JANÚAR: MIÐHÁLENDI ÍSLANDS

Í ár á Landmótun 30 ára afmæli en teiknistofan var stofnuð 15. september 1994. Á þessu afmælisári ætlum við að sýna brot af starfi okkar síðustu 30 árin með því að birta eitt verkefni í hverjum mánuði. Landmótun hefur ávallt leitast við að vera í fararbroddi á sviði landslagsarkitektúrs og skipulags og kappkostar að leggja sitt af mörkum við að móta fallegt umhverfi á Íslandi.  Fyrsta verkefni sem kynnt er á 30 ára afmælisári Landmótunar er Miðhálendi Íslands en stofan var stofnuð á grundvelli samnings um þetta stóra skipulagsverkefni. 

  • Heiti verks: Svæðisskipulag Miðhálendi Íslands
  • Hönnuðir: Einar E. Sæmundsen, Gísli Gíslason & Yngvi Þór Loftsson
  • Verkkaupi: Skipulagsstofnun (Skipulag Ríkisins)
  • Hannað: 1994-1999

Í upphafi tíunda áratugarins var lífleg umræða um að vinna svæðisskipulag fyrir Miðhálendi Íslands. Nýting þessa víðáttumikla landssvæðis sem er stjórnað af aðliggjandi sveitarfélögunum var til umræðu; ferðamennska, orkunýting, hefðbundin afréttanýting, náttúruvernd og skipulag þessara þátta.

Lagt var fram frumvarp til laga á Alþingi um að gera hálendið að einu sveitarfélagi með sjálfstæða stjórn. Sú tillaga féll í grýttan jarðveg hjá sveitarfélögum umhverfis landið, sem áttu aldagömul réttindi til nytja á hálendinu og frumvarpið var lagt til hliðar.

Niðurstaðan varð sú að sett var bráðabirgðaákvæði við skipulagslög sem gerði héraðsnefndum kleyft að mynda sérstaka samvinnunefnd til að gera tillögu að skipulagi Miðhálendis Íslands. Samkvæmt því skipuðu tólf héraðsnefndir sem hlut áttu að máli hver um sig einn fulltrúa í samvinnunefndina en umhverfisráðherra skipaði formann. Að undangengnu útboði á skipulagsvinnu á vegum Skipulags ríkisins var Landmótun, skipulagsstofa landslagsarkitekta ráðin til verksins.

Í október 1994 var svo hafist handa og segja má að sá leiðangur hafi í mörgum skilningi minnt á landkönnunarleiðangra 19. aldar því leiðin að markmiðinu, að gera svæðisskipulag fyrir Miðhálendi Íslands, var hvorki bein né greið. Til að vinna ýmis verkefni sem kröfðust sérþekkingar var leitað til stofnanna eða einstakra vísindamanna sem allir lögðust á eitt til að leysa verkefnið.

Afmörkun skipulagssvæðisins lág fyrir í grófum dráttum. Víða voru mörk afrétta notuð sem mörg hver voru sýnileg sem afréttagirðingar. Annars staðar var horft til landslags svo sem jökla og vatna. En staðarmörk einstaka sveitarfélaga voru óljós, sérstaklega á jöklum.


Skipulagsvinnunni var skipt upp í þrjú megin stig:

A.  Almennar forsendur. Almennar lýsingar á öllu Miðhálendinu þar sem tekið var fyrir náttúrufar, landnotkun, fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og löggjöf.
Landinu var skipt upp í landslagsheildir sem hver hefur sín séreinkenni og var þá einkum stuðst við jarðfræðilega þætti, berggrunn, landmótun og samfellda gróðurþekju, einkum votlendis. Náttúrufarslegum forsendum var lýst eftir landslagsheildunum og einstökum deilisvæðum þeirra. Gróðurfar hálendisins er fábreytt en þess meiri fjölbreytni gætir í landslagi og landmótun. Mörk svæðanna og deilisvæða þeirra gefa til kynna breytileika í fimm náttúrufarsþáttum, sem eru um leið greiningar- og lýsingarlyklar fyrir svæðið. Þeir eru:

  1. Landslag (macro-relief), dalir og fjöll sem mótast af samspili upphleðslu og rofs og byggir á berggrunni og jarðgrunni.
  2. Landsáferð (nano-, micro-relief), yfirborðsáferð lands.
  3. Veðurfar og snjóalög, einkum sumarhiti og úrkoma.
  4. Vatnafar; fallvötn, stöðuvötn, grunnvatn, lífríkisgrunnur.
  5. Gróðurfar og jarðvegsþekja; gróðurþekja, gróðurlendi, jarðvegsgerð, ástand jarðvegs.

Þessir þættir ráða mestu um aðgengi, útsýni, skjól og annað sem snýr að ferðamönnum.

 B. Forsendur eftir landshlutum.
Skipulagssvæðinu var skipt upp í fjóra hluta eins og sést á kortinu:

  1. Norðvesturhálendið: Frá Kaldadal að Sprengisandi.
  2. Norðausturhálendið: Frá Sprengisandi að Eyjabökkum.
  3. Austurhálendið: Frá Eyjabökkum að Skaftafelli.
  4. Suðurhálendið: Frá Skaftafelli að Kaldadal.

Í landshlutalýsingum var greining og mat á náttúrufari, náttúru- og söguminjum, hefðbundnum nytjum, orkumálum, útivist og ferðamálum, samgöngum og byggingamálum.
C. Megindrættir skipulagsáætlunarinnar. :

Stefnumörkun í skipulagsmálum á Miðhálendinu byggir á þeirri grunnhugmynd að deila Miðhá-lendinu upp í stórar samfelldar landslagsheildir og belti, eftir mannvirkjastigi og verndargildi. Annars vegar eru verndarheildir og hins vegar mannvirkjabelti.  Þannig er stuðlað að því annars vegar að allri meiriháttar mannvirkjagerð verði haldið á afmörkuðum beltum, en hins vegar verði teknar frá sem stærstar og samfelldastar verndarheildir þar sem framkvæmdum er haldið í lágmarki. Innan verndarheildanna eru stærstu ósnortnu víðerni Íslands. Almennt séð ber að halda hverskonar mannvirkjagerð á Miðhálendi Íslands í lágmarki og þess í stað að beina henni á jaðarsvæði hálendisins. Verndarheildir og mannvirkjabeltin koma ekki fram sem sérstakir landnotkunarþættir á skipulagsuppdrætti, en eru engu að síður leiðbeinandi og stefnumarkandi varðandi alla mannvirkjagerð og afmörkun hvers konar verndarsvæða á hálendinu.

Stefnumörkun um verndarheildir
Verndarheildir  er samheiti fyrir landnotkun með lágu byggingarstigi. Náttúruverndarsvæði eru ríkjandi í landnotkun ásamt  almennum verndarsvæðum, vatnsvernd og þjóðminjasvæðum.  Þar eru einnig mikilvægustu útivistarsvæðin með gistiskálum, tjaldsvæðum, gönguleiðum og reiðleiðum. Á jöðrum verndarheilda eru víða þjónustumiðstöðvar ferðamanna. Beitarfiðun og aðrar aðgerðir til að endurheimta fyrri landgæði eiga viða við innan verndarheilda. Verndarheildir liggja utan mannvirkjabeltanna í a.m.k. 2,5 km fjarlægð frá næstu aðalfjallvegum og orkumannvirkjum; háspennulínum og miðlunarlónum. Lágmarksstærð eininga í verndarheildum er 25 km2 og allir jöklar Miðhálendisins tilheyra þeim.

Stefnumörkun um mannvirkjabelti
Allri meiriháttar mannvirkjagerð á Miðhálendinu er haldið innan ákveðinna brauta, s.k. mannvirkjabelta.
Á mannvirkjabeltunum eru allir aðalfjallvegir (stofnvegir) hálendisins og þau mannvirki sem tengjast raforkuvinnslu,  þ.e. lónastæði, háspennulínur og sjálf orkuverin. Ennfremur helstu þjónustusvæði ferðamanna, þ.e. jaðarmiðstöðvar, hálendismiðstöðvar og hluti skálasvæða. Flestar jaðarmiðstöðvar eru staðsettar í tengslum við byggð í námunda við hálendisjaðarinn.

Svæðisskipulagið var samþykkt 1998 og staðfest af ráðherra umhverfismála í maí 1999.

Gildistími Svæðisskipulags Miðhálendis Íslands var til 2015 og frá því að það tók gildi hafa aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga sem ná til Miðhálendisins tekið tillit til þeirra stefnumörkunar sem svæðisskipulagið lagði til.   Nú  stefnir í að skipulag Miðhálendis Íslands muni lifa áfram í Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem unnið er og stefnt er á að verði samþykkt 2015.