Staðsetning: Frá Litlaskógi í Mosfellsbæ, um Hamrahlíðarskóg til Reykjavíkur
Notkun: Aðalstígur hjólandi- og gangandi umferðar
Samstarf: VSÓ verkfræðistofa
Landslagsarkitektar Landmótun: Áslaug Traustadóttir og Þórhildur Þórhallsdóttir
Verkkaupi: Mosfellsbær
Hönnunar- og verktími: 2010-2013

Vesturlandsvegurinn undir Úlfarsfelli er einn af umferðarmestu vegum landsins og tilheyrir Vegagerðinni sem þjóðvegur í þéttbýli. Vegalög nr. 80 frá 2007 heimila í fyrsta sinn Vegagerðinni að veita fé í göngu- og hjólastíga meðfram umferðamestu þjóðvegum landsins. Stígurinn undir Úlfarsfelli er einn af fyrstu stígunum sem fjármagnaður er á þennan hátt. Hann tengir saman Mosfellsbæ og Reykjavík en hingað til hafa stígar á milli þessara nágrannasveitarfélaga verið af skornum skammti, sérstaklega fyrir þá sem nota reiðhjól sem samgöngumáta.

Landmótun kom að hönnun og legu stígsins, sem er 2,7 km, fyrir hönd Mosfellsbæjar. Stígurinn er 3 m breiður, malbikaður og upplýstur. Lögð var áhersla á að lengdar og hliðarhallar stígsins henti hjólreiðamönnum vel, en einnig lögð áhersla á upplifunarþátt þeirra sem um stíginn fara. Þar sem klettar Úlfarsfells ná langt að Vesturlandsvegi var ekki hjá því komist að leggja stíginn upp við klettana, en þar sem svigrúm gefst sveigir stígurinn frá Vesturlandsveginum. Á vissum svæðum liggur stígurinn í gegnum gróskumikil skógræktarsvæði þar sem ferðalangar njóta skjólsins af stórum trjánum og hvíldar frá umferð vegarins. Með þessu eykst einnig útivistargildi stígsins, en skógræktarsvæði Mosfellinga við Hamrahlíð verður sífellt vinsælla og því mikilvægt að bjóða upp á umhverfisvæna og góða tengingu við það. Lega stígsins í gegnum skóginn var unnin í góðri samvinnu við Skógræktarféleg Mosfellsbæjar.

Nýr hjóla- og göngustígur milli Mosfellsbæjar og  Reykjavíkur var formlega tekinn í notkun 2012 þann 14. desember kl. 12.14 af borgarstjóra Reykjavíkur, bæjarstjóra Mosfellsbæjar og vegamálastjóra.