Mósaíktjörn á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði – forkynning

Mósaíktjörn á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði – forkynning

Á árunum 2005-2008 vann Landmótun að hönnun nánasta umhverfis nýbygginga á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði. Húsin risu og lokið var við að ganga frá umhverfinu í megin atriðum, en vegna utankomandi aðstæðna varð að fresta því að ljúka frágangi við tjörn á lóðinni.
Á undirbúningstíma verksins vann Einar Birgisson landslagsarkitekt að hönnun svæðisins sem starfsmaður Landmótunar. Hann sá að ýmsir möguleikar gætu falist í því að leggja flísalistaverk í botn tjarnarinnar sem liggur á milli húsanna. Einar er hugmyndaríkur og góður teiknari og gerði mynd með ýmsum sjávardýrum fyrir íbúa að njóta frá íbúðum sínum og sem gæti einnig örvað börn að leik í og við tjörnina.
Nú hillir undir verklok við frágang lóðarinnar á Norðurbakka 1-3. Veðurblíðan í haust var nýtt til að leggja mósaíkmyndina í botn tjarnarinnar en hún er 60m x 4m að stærð eða 240 fermetrar. Vinna við lokafrágang, eins og að tengja vatn í tjörnina og ganga frá göngubrúm, mun fara fram í vetur og er formleg opnun svæðisins áætluð á komandi vori.

Arkitektar bygginga voru Arkþing, landslagsarkitektar Landmótun og byggingarverktaki ATAFL í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Þegar kom að mósaíkflísum var leitað til Víddar ehf í Kópavogi, sem sá um að koma á sambandi við ítalskan flísaframleiðanda, CE.SI. sem er staðsettur norðan við Mílanó.
Höfundur mósaíkmyndarinnar, Einar Birgisson landslagsarkitekt, býr nú og starfar í Þrándheimi í Noregi.
Ítarlegri kynning á verkefninu í heild bíður opnunar í vor.