Útsýnispallur á Bolafjalli

Útsýnispallur á Bolafjalli

  • Heiti verks: Útsýnispallur á Bolafjalli
  • Hönnuðir: Aðalheiður E. Kristjánsdóttir, Jóhann S. Pétursson (Landmótun) og Einar Hlér & ShruthiBasappa  (sei arkitektar)
  • Verkkaupi: Bolungarvík
  • Framkvæmdaraðili: Bolungarvík
  • Hannað: 2018-2019
  • Framkvæmt: 2020-2021
  • Sveitarfélag: Bolungarvík
  • Samstarfsaðilar: EFLA burðarþolshönnun

Segja má að Bolafjall sé á mörkum hins byggilega. Það hefur, eins og flest önnur fjöll á Vestfjörðum lítið breyst frá lokum síðustu ísaldar. Markmið tillögunnar er að fanga öll þau tækifæri sem Bolafjall hefur upp á að bjóða, án þess að ganga um of á hið ósnortna landslag eða henda til óþarfa tilkostnaði. Undirstrika sérstöðu staðarins þar sem hin mikilfenglega náttúra Vestfjarða og hið manngerða umhverfi á Bolafjalli (ratsjárstöðin) mætast. Einfaldleiki, látleysi og gegnsæi hafa yfirhöndina í tillögunni og setja mark sitt á alla þætti hönnunarinnar.

Útsýnispallur við fjallsbrún.

Nýr útsýnisstaður við Bolafjall myndar nýtt þrep í Stigahlíðina og verður hluti af klettabeltinu. Helsta einkenni útsýnispallsins er að hann hallar um 3° niður á við eftir langhliðinni. Sú hlið er 58,5m og skagar um 4 metra fram fyrir fjallsbrúnina sem hann fylgir. Við upptök sín er pallurinn í landhæð en eftir hægan aðdraganda, þegar á enda pallsins er komið, er augnhæð komin niður fyrir landhæðina, og á einstöku augnabliki, þegar komið er handan fjallsbrúnarinnar, sér augað ekkert annað en fjallshlíðar Bolafjalls, hafið, Djúpið og firðina í kring. Með nálægðinni og snertinguna við fjallið verður til áður ómöguleg upplifun, sem skapar nánd og tengingu fyrir gesti við fjallið, þar sem fjallshlíðin er skyndilega áþreifanleg. Breidd pallsins er breytileg og tekur form sitt eftir formi fjallsins en pallurinn er 1,5m þar sem hann er þrengstur. Flatarmál pallsins er um 160 m² og er uppbyggingin þannig að stálgrind er fest í bjargið, með 45° skástífum sem festar verða í bita og boltaðar neðar í bjargið.

Gólf pallsins er úr trefjaplastsristum, byggt upp úr einingum sem eru 3,6m x 1,2m að stærð, efnið er með innbyggðri hálkuvörn og auðvelt er að fella það að fjallsbrúninni. Tvöfaldar stálstoðir, 1,30m að hæð, með u.þ.b. tveggja metra millibili, halda uppi handlista unnum úr rekavið. Handlisti er í 1,0m hæð en handriðið sjálft er úr ofnu stálneti «steel wire mesh» og strekktir verða stálvírar, efst og neðst í gegnum stoðirnar sem halda uppi netinu sem myndar handriðið. Hæð á á handriði er 1,25m. Megin áherslan í vali á byggingarefnum er að hámarka endingu, undirstrika léttleika og lágmarka áhrif snjóálags og skapa sem gegnsæjasta áferð  þannig að pallurinn falli sem best inni í umhverfið. Í nálægð við norðurenda pallsins er komið fyrir tröppum, sem tengjast inn á hringleiðina, sem liggur meðfram pallinum. Tröppurnar falla inn í náttúrulegt skarð og eru felldar að landslaginu líkt og allur pallurinn. Hæðarmunurinn sem tröppurnar brúa er um 1,8 metrar og eru þær fullkominn staður til þess að setjast niður og njóta útsýnisins í austur, eftir að hafa kannað allan pallinn eða til að tilla sér niður fyrir þá sem velja það að fara ekki fram af fjallsbrúninni. Alla hluta pallsins verður hægt að forsmíða og flytja á staðinn í einingum.

Ný aðkoma og hringleiðir munu líka taka gildi ásamt gönguleiðum um fjallið og innlýstri ratsjarkúlu.

Myndir eftir SEI Studio https://seistudio.is/