Endurnýjuð umhverfisvottun Landmótunar

Á nýju ári fékk Landmótun endurnýjun á umhverfisstjórnunarkerfi sínu ÍST-14001 sem gildir til ársins 2022.

Kerfið er alþjóðlegur staðall sem lýsir því hvernig koma megi á virkri umhverfisstjórnun í hvaða rekstri sem er. Kerfið felur meðal annars í sér betri stýringu umhverfismála en Landmótun vinnur stöðugt að því að minnka umhverfisáhrif frá allri starfsemi sinni, hvort sem er í innra starfi eða í verkefnum stofunnar.

Með innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfisins hefur stofan á þessum árum haldið grænt bókhald og þar með fylgst með grænum lykiltölum og sett sér árlega markmið og aðgerðaráætlun um þýðingarmestu umhverfisþætti.

Margt hefur áunnist á þessum árum en talsverður hluti starfsmanna er með samgöngusamning, allsherjar flokkun fer fram á stofunni og við innkaup er ávallt horft til þess að keyptar séu umhverfisvottaðar vörur. Skemmtilegur afrakstur aukinnar flokkunar er jarðgerð sem fram fer á stofunni þar sem lífrænn úrgangur er notaður í moltuframleiðslu og hafa nokkrir starfsmenn notið góðs af því og notað næringarríka moltu í beðin heima fyrir.

Árangur í umhverfisstjórnun sl. ára hefur því leitt til bættrar umhverfisvitundar á öllum sviðum og er um leið hvatning til frekari dáða á næstu árum.

Gleðileg jól

Hafnarstræti jól 2017

Við sendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum okkar innilegar jóla- og nýarskveðjur með þökk fyrir samstarf á liðnu ári.

Landmótun er fjölskylduvænn vinnustaður og lokar frá 22. desember til og með 1. janúar.

Hlökkum til samstarfs á komandi ári.

Starfsfólk Landmótunar.

 

Mósaíktjörn á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði – forkynning


Á árunum 2005-2008 vann Landmótun að hönnun nánasta umhverfis nýbygginga á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði. Húsin risu og lokið var við að ganga frá umhverfinu í megin atriðum, en vegna utankomandi aðstæðna varð að fresta því að ljúka frágangi við tjörn á lóðinni.
Á undirbúningstíma verksins vann Einar Birgisson landslagsarkitekt að hönnun svæðisins sem starfsmaður Landmótunar. Hann sá að ýmsir möguleikar gætu falist í því að leggja flísalistaverk í botn tjarnarinnar sem liggur á milli húsanna. Einar er hugmyndaríkur og góður teiknari og gerði mynd með ýmsum sjávardýrum fyrir íbúa að njóta frá íbúðum sínum og sem gæti einnig örvað börn að leik í og við tjörnina.
Nú hillir undir verklok við frágang lóðarinnar á Norðurbakka 1-3. Veðurblíðan í haust var nýtt til að leggja mósaíkmyndina í botn tjarnarinnar en hún er 60m x 4m að stærð eða 240 fermetrar. Vinna við lokafrágang, eins og að tengja vatn í tjörnina og ganga frá göngubrúm, mun fara fram í vetur og er formleg opnun svæðisins áætluð á komandi vori.
Arkitektar bygginga voru Arkþing, landslagsarkitektar Landmótun og byggingarverktaki ATAFL í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Þegar kom að mósaíkflísum var leitað til Víddar ehf í Kópavogi, sem sá um að koma á sambandi við ítalskan flísaframleiðanda, CE.SI. sem er staðsettur norðan við Mílanó.
Höfundur mósaíkmyndarinnar, Einar Birgisson landslagsarkitekt, býr nú og starfar í Þrándheimi í Noregi.
Ítarlegri kynning á verkefninu í heild bíður opnunar í vor.