Útgáfu ,,Að búa til ofurlítinn skemmtigarð” eftir Einar E. Sæmundsen fagnað

Á dögunum var fagnað útgáfu bókarinnar ,,Að búa til ofurlítinn skemmtigarð.  Íslensk garðsaga – Landslagsarkitektúr til gagns og prýði” eftir Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt og einn af stofnendum Landmótunar. Þetta glæsilega rit hefur verið hugarfóstur Einars í áraraðir og ljóst er að vandað hefur verið til verks þar sem bókin er hin glæsilegasta.

Þetta er einstakt yfirlitsverk um sögu og þróun íslenskrar garðhönnunar eða landslagsarkitektúrs, og er umhverfismótunin þar sett í samhengi við rætur íslenskrar menningar og tengd alþjóðlegum straumum og stefnum. Fjallað er um sögu garða á Íslandi frá elstu tímum en einkum um tímabilið frá þéttbýlismyndun þegar almenningsgarðar og útivistarsvæði urðu hluti af skipulagsgerðinni. Höfundur gengur um ýmsa kunna garða og miður þekkta, og fjallar sérstaklega um feril tveggja frumkvöðla í stétt landslagsarkitekta, þeirra Jóns H. Björnssonar (í Alaska) og Reynis Vilhjálmssonar.

Við óskum Einari innilega til hamingju með þennan stóra áfanga.

 

Höfundurinn Einar E. Sæmundsen og einn af frumkvöðlum landslagsarkitektúrs á Íslandi Reynir Vilhjálmsson við útgáfu bókarinnar.

Endurnýjuð umhverfisvottun Landmótunar

Á nýju ári fékk Landmótun endurnýjun á umhverfisstjórnunarkerfi sínu ÍST-14001 sem gildir til ársins 2022.

Kerfið er alþjóðlegur staðall sem lýsir því hvernig koma megi á virkri umhverfisstjórnun í hvaða rekstri sem er. Kerfið felur meðal annars í sér betri stýringu umhverfismála en Landmótun vinnur stöðugt að því að minnka umhverfisáhrif frá allri starfsemi sinni, hvort sem er í innra starfi eða í verkefnum stofunnar.

Með innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfisins hefur stofan á þessum árum haldið grænt bókhald og þar með fylgst með grænum lykiltölum og sett sér árlega markmið og aðgerðaráætlun um þýðingarmestu umhverfisþætti.

Margt hefur áunnist á þessum árum en talsverður hluti starfsmanna er með samgöngusamning, allsherjar flokkun fer fram á stofunni og við innkaup er ávallt horft til þess að keyptar séu umhverfisvottaðar vörur. Skemmtilegur afrakstur aukinnar flokkunar er jarðgerð sem fram fer á stofunni þar sem lífrænn úrgangur er notaður í moltuframleiðslu og hafa nokkrir starfsmenn notið góðs af því og notað næringarríka moltu í beðin heima fyrir.

Árangur í umhverfisstjórnun sl. ára hefur því leitt til bættrar umhverfisvitundar á öllum sviðum og er um leið hvatning til frekari dáða á næstu árum.

Gleðileg jól

Hafnarstræti jól 2017

Við sendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum okkar innilegar jóla- og nýarskveðjur með þökk fyrir samstarf á liðnu ári.

Landmótun er fjölskylduvænn vinnustaður og lokar frá 22. desember til og með 1. janúar.

Hlökkum til samstarfs á komandi ári.

Starfsfólk Landmótunar.