Yngvi Þór Loftsson

Yngvi Þór Loftsson

Við starfsfólk og félagar hjá Landmótun viljum minnast Yngva Þórs Loftssonar sem lést þann 13. október 2025, 73 ára að aldri, eftir erfið veikindi. Yngvi lætur eftir sig stórt skarð í röðum samstarfsfólks og vinahóps, en ljúfar minningar um hlýjan og skemmtilegan dreng lifa áfram með okkur öllum.

Yngvi lauk Bs. prófi í landfræði frá Háskóla Íslands árið 1977, meistaranámi í landslagsarkitektúr frá University of Guelph í Kanada árið 1986. Að námi loknu hóf hann störf hjá Borgarskipulagi Reykjavíkur og gegndi þar starfi deildarstjóra umhverfisdeildar árin 1986–1993. Þekkingu sína og ástríðu fyrir skipulagsmálum nýtti Yngvi svo til fulls er hann stofnaði Landmótun árið 1994 ásamt kollegum sínum, Einari E. Sæmundsen og Gísla Gíslasyni.

Frá stofnun Landmótunar var Yngvi einn af lykilmönnum fyrirtækisins. Hann var lengi framkvæmdastjóri Landmótunar og stýrði skipulagsdeildinni af myndarskap í fjöldamörg ár. Yngvi kom að fjölmörgum mikilvægum verkefnum á sviði skipulags- og hönnunar á ferli sínum. Honum þótti sjálfum eftirminnilegast að vinna að skipulagi- og hönnun fyrir útivistarsvæðið í Fossvogsdal,  Öskjuhlíð, Ylströndina í Nauthólsvík sem og Lýðveldisgarðinn við Hverfisgötu í miðborg Reykjavíkur sem opnaður var árið 1994 í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins. Einnig  átti Yngvi stóran þátt í gerð Svæðisskipulags Miðhálendisins (Miðhálendisskipulag), þar sem víðfeðm náttúra Íslands og framtíðarsýn um sjálfbæra nýtingu lands mættust í hans vinnu.

Yngvi var afar ötull félagsmaður í Félagi íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) og naut virðingar innan stéttarinnar. Þekking hans og reynsla skiluðu sér í faglegri forystu; hann deildi gjarnan ráðleggingum og leiddi ung landslagsarkitektaefni áfram af sinni einstöku hógværð.

Þrátt fyrir fjölbreytt afrek var Yngvi fyrst og fremst einstakur vinur og glaðvær persóna. Hann var jafnan hlýr og hrókur alls fagnaðar í hvers kyns samkomum; það fór vel á með honum og öllum sem hann umgekkst. Yngvi var ræðinn og húmorískur, alltaf boðinn og búinn að miðla skemmtilegum sögum eða gullkornum úr lífi og starfi. Í minningum okkar lifir hann áfram sem sá öðlingur sem skapaði góða stemningu á vinnustað okkar og sýndi samstarfsfólki sínu jafnt virðingu, vinsemd og alúð.

Yngvi  þurfti því miður að láta af störfum vegna veikinda og smám saman hvarf hann úr daglegu lífi okkar. Það var sárt fyrir okkur að horfa upp á slíkan lífsglaðan og félagslyndan mann hverfa hægt úr lífi okkar en nú þegar Yngvi er fallinn frá er okkur þakklæti efst í huga – þakklæti fyrir að hafa notið leiðsagnar hans, samvista og vináttu.

Við hjá Landmótun kveðjum kæran félaga með virðingu og miklum söknuði. Minningin um Yngva mun lifa áfram í verkum hans um allt land, í gróðri, görðum og skipulagi sem hann mótaði, og ekki síst í hjörtum okkar sem fengum að starfa með honum. Takk fyrir allt, Yngvi.

Við sendum fjölskyldu hans og ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Yngva Þórs Loftssonar.

Starfsfólk Landmótunar