Samþykkt tillögu að verndarsvæði í byggð í vesturhluta Víkur í Mýrdal

Samþykkt tillögu að verndarsvæði í byggð í vesturhluta Víkur í Mýrdal

Í febrúar 2020 samþykkti mennta- og menningarmálaráðherra tillögu að verndarsvæði í byggð í vesturhluta Víkur í Mýrdal, skv. lögum nr. 87/2015, en Landmótun vann að gerð tillögunnar fyrir hönd Mýrdalshrepps. Verndarsvæði í byggð er afmarkað svæði í þéttbýli sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra.

Svæðið nær frá Víkurbraut 16 í austri og tekur til húsa norðan Víkurbrautar til og með bátaskýlisins við Víkurbraut 40a, auk húsa númer 21 (Halldórsbúð), 21a, 17 (Skaftfellingabúð), 19, 11 og 11a, sem eru sunnan Víkurbrautar. Innan þessarar afmörkunar eru verslunar- og íbúðarhús frá upphafi fjölbýlismyndunar í Vík og fram til ársins 1918, auk nokkurra yngri bygginga.

Markmið þess að gera vesturhluta Víkurþorps að verndarsvæði í byggð er að vernda svipmót byggðarinnar og gera sögulegu mikilvægi svæðisins hátt undir höfði. Með skilgreiningu verndarsvæðis í byggð er mörkuð stefna um verndun, viðhald og þróun elsta hluta Víkurþorps sem getur m.a. þjónað sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn ef vel er að verki staðið. Í tillögunni eru settir skilmálar til þess að mynda ramma um framtíðarþróun og uppbyggingu innan svæðisins, með það fyrir augum að standa vörð um menningarsöguleg verðmæti svæðisins.

Landmótun óskar Mýrdalshreppi til hamingju með verndarsvæðið!

Tillöguna í heild má nálgast á vef Mýrdalshrepps: https://www.vik.is/files/149/20181030105728ab3767c49fc6930c43959c807a27ff08.pdf