Einar E. Sæmundsen

Einar E. Sæmundsen

Vinur okkar og samstarfsfélagi til margra ára Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt lést þann 15. september 2023. Einar var einn af fyrstu landslagsarkitektunum á Íslandi og brautryðjandi í faginu en hann útskrifaðist sem Landslagsarkitekt frá Arkitektaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1972. Hann var einn af stofnfélögum Félags Íslenskra Landslagsarkitekta (FÍLA) 1978 og Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga (SAMGUS) 1992. Árið 1994 stofnaði hann ásamt fleirum teiknistofuna Landmótun í kringum Skipulag Miðhálendis Íslands. Einar var stoltur af Landmótun og til merkis um það stóð hann fyrir útgáfu bókar um stofuna á 20 ára afmæli Landmótunar.

Starfsferill Einars spannar rúm 50 ár og verkefnin orðin ótalmörg. Flestir kannast við Bernhöftstorfuna, Fossvogskirkjugarð í Reykjavík og umhverfi kapellunnar þar. Einar vann líka að stórum skipulagsverkefnum s.s. Skipulagi miðhálendis Íslands (1994-2015), Svæðisskipulagi Héraðssvæðis 1998-2010, ásamt mörgum aðalskipulagsverkefnum og ótal deiliskipulagsverkum. Sum af verkefnum Einars hafa spannað marga áratugi svo sem Jökulsárgljúfur þar sem Einar vann bæði að skipulagi og hönnun.
Einar var frumkvöðull þegar kom að hönnun kirkjugarða á Íslandi. Hann vann í gegnum langan tíma með Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæmis svo sem að hönnun á Gufuneskirkjugarði, Kópavogskirkjugarði ásamt kortagerð og hönnun fyrir Hólavallagarð (Suðurgötugarð). Einar var stoltur að vinnu sinni við kirkjugarðinn á Stað við Grindavík og nærumhverfi kirkjunnar á Þingvöllum.

Dæmi um nýleg verkefni sem Einar vann að voru Útsýnispallar og umhverfi við Dettifoss, Faktorshúsið á Djúpavogi, garður við BUGL í Reykjavík, mósík tjörnin á Norðurbakkanum í Hafnarfirði, Kerið í Grímsnesi, þjóðgarðamiðstöðin á Skriðuklaustri og lóð Háskólans í Reykjavík. Einar var í forsvari fyrir hóp sem vann 1. verðlaun fyrir tillögu um Geysi í Haukadal árið 2014 og fylgdi því verkefni fram á síðasta dag.
Einar hafði óendalegan áhuga á sögunni, sérstaklega hvað varðar ræktun og gerð skrúðgarða. Hann kom þessari þekkingarleit sinni í veglega bók, „AÐ BÚA TIL OFURLÍTINN SKEMMTIGARГ sem kom út árið 2018. Einar hefur undanfarin ár verið í forsvari fyrir Garðsöguhóp FÍLA sem hefur unnið að verndun og friðun lifandi minja.
Einar hafði mikinn áhuga á samfélaginu og umhverfinu sem við lifum í. Hann taldi að við værum að hanna hversdagsumhverfi og ættum að gera vel. Hann hafði óslökkvandi áhuga á nýjum straumum og stefnum, og var alltaf tilbúin að tileinka sér nýungar – hvort sem væri hugmyndafræði eða tækni. Einar var duglegur að miðla reynslu og þekkingu. Hann hafði gaman af kennslu og mikla trú á nemendum sínum.

Allt til síðustu daga var Einar að sinna verkefnum, deila hugmyndum og veita okkur hér á stofunni innblástur og aðhald. Þó að verkefnum hans hefði fækkað á undanförnum árum, þá kom hann reglulega við og tók þátt í því sem var að gerast, alltaf til í spjall og vangaveltur.
Það eru fallegar minningar og hlý orð sem koma upp í hugann þegar við minnumst Einars. Hann hafði áhrif á marga í sínu fagi en hann hafði óbilandi áhuga á hönnun og samfélaginu sem við mótum. Hann sá fegurðina umhverfinu og notaði hana sem innblástur í verkin sem hann stýrði á árangursríkan hátt. Einar var dagfarsprúður maður, fylginn sér og ákaflega gott að vinna með honum. Hann var ekki bara samstarfsfélagi heldur einnig góður vinur og var annt um samstarfsfólkið sitt. Það er erfitt að koma í orð þeirri tilfinningu að eiga ekki lengur von á því að hann kíki til okkar.

Um leið og við sendum aðstandendum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur þá þökkum við Einari fyrir samfylgdina. Takk fyrir innblásturinn, hugmyndirnar, gleðina, handleiðsluna og endalausa þekkingarleitina sem þú ýttir okkur út í. Takk fyrir allt sem þú lagðir fram í faginu okkar, við og samfélagið allt, erum ríkari fyrir vikið.

Samstarfsfélagar á Landmótun