Mósaíktjörn á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði – forkynning


Á árunum 2005-2008 vann Landmótun að hönnun nánasta umhverfis nýbygginga á Norðurbakka 1-3 í Hafnarfirði. Húsin risu og lokið var við að ganga frá umhverfinu í megin atriðum, en vegna utankomandi aðstæðna varð að fresta því að ljúka frágangi við tjörn á lóðinni.
Á undirbúningstíma verksins vann Einar Birgisson landslagsarkitekt að hönnun svæðisins sem starfsmaður Landmótunar. Hann sá að ýmsir möguleikar gætu falist í því að leggja flísalistaverk í botn tjarnarinnar sem liggur á milli húsanna. Einar er hugmyndaríkur og góður teiknari og gerði mynd með ýmsum sjávardýrum fyrir íbúa að njóta frá íbúðum sínum og sem gæti einnig örvað börn að leik í og við tjörnina.
Nú hillir undir verklok við frágang lóðarinnar á Norðurbakka 1-3. Veðurblíðan í haust var nýtt til að leggja mósaíkmyndina í botn tjarnarinnar en hún er 60m x 4m að stærð eða 240 fermetrar. Vinna við lokafrágang, eins og að tengja vatn í tjörnina og ganga frá göngubrúm, mun fara fram í vetur og er formleg opnun svæðisins áætluð á komandi vori.
Arkitektar bygginga voru Arkþing, landslagsarkitektar Landmótun og byggingarverktaki ATAFL í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Þegar kom að mósaíkflísum var leitað til Víddar ehf í Kópavogi, sem sá um að koma á sambandi við ítalskan flísaframleiðanda, CE.SI. sem er staðsettur norðan við Mílanó.
Höfundur mósaíkmyndarinnar, Einar Birgisson landslagsarkitekt, býr nú og starfar í Þrándheimi í Noregi.
Ítarlegri kynning á verkefninu í heild bíður opnunar í vor.

Akratorg tilnefnt til menningarverðlauna DV

Akratorg 16. júní 2016
Akratorg 16. júní 2014.

Landmótun hefur verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir Akratorg í flokknum Arkitektúr. Menningarverðlaunin verða afhent þriðjudaginn 24. mars næstkomandi í Iðnó og alls eru 45 verkefni tilnefnd í níu flokkum, þar af fimm í flokknum Arkitektúr. Hin verkefnin eru Hverfisgata 71a frá Studio Granda, Hús í Árborg frá PK arkitektum, Hæg breytileg átt sem er rannsóknarverkefni um borgaraumhverfi og íbúðagerð og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ frá A2F arkitektum.

Til viðbótar við menningarverðlaunin mun forseti Íslands veita heiðursverðlaun og einnig verða lesendaverðlaun dv.is veitt en hér er hægt að fara inn á vefinn og kjósa það verkefni sem lesendum lýst best á.

Landmótun og verkfræðistofan Verkís fengu nýlega Íslensku lýsingarverðlaunin fyrir Akratorg.

Hönnunarsamkeppni Laugavegs

16.01.2015
Landmótun tók þátt í hönnunarsamkeppni um Laugaveg. Um var að ræða lokaða hönnunarsamkeppni sem Reykjavíkurborg hélt í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta – FÍLA.

VS1403_Laugatorg VS1403_Megasartorg

Markmið tillögu Landmótunar var að skapa aðlaðandi borgarrými sem myndar ramma um fjölbreytt mannlíf. Gangandi vegfarendum er gert hærra undir höfði og aðgengi fyrir alla haft í fyrirrúmi um leið og virðing er borin fyrir sögunni og húsin fá meira pláss og meiri athygli. Lögð var áhersla á Laugaveginn sem stað þar sem umhverfið hvetur fólk til að ganga, staldra við, dvelja, njóta og taka þátt í mannlífi borgarinnar. Unnið var markvisst með yfirborð og horfið frá hefðbundnum aðskilnaði bíla og gangandi umferðar.

Í umsögn dómnefndar segir “tillagan felur í sér áhugaverðar hugmyndir. Mynstrið í hellum er margbrotið og gefur götunni líflegt yfirbragð. Merking gatnamóta í yfirborði götu er athyglisverð. Útfærsla og aðlögun að nærliggjandi götum gæti þó orðið vandasöm. Hugmyndir um lýsingu og vatnsnotkun í göturýminu eru skoðunarverðar. Hugmynd um leiðarlínu í götu er áhugaverð. Saknað er ítarlegri tillagna um útfærslu á götugögnum, lýsingu og gróðri.  Tillagan býður upp á hlýlegt yfirbragð götu og ýmsar góðar hugmyndir.”

Hér má skoða tillöguna, renningur og greinargerð .