Auglýsing um deiliskipulag fyrir aksturskennslusvæði og vélhjólaakstursbrautir við Bolaöldur í Ölfusi

Auglýsing um deiliskipulag fyrir aksturskennslusvæði og vélhjólaakstursbrautir við Bolaöldur í Ölfusi

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga að deiliskipulagi fyrir aksturskennslusvæði og vélhjólaakstursbrautir við Bolaöldur, Ölfusi.

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti á fundi sínum 2. maí 2013 og í endurtöku á fundi sínum 27. júní 2013 að heimila auglýsingu á deiliskipulaginu. Skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd tók erindið fyrir 16. apríl 2013 og 18. júní 2013. Deiliskipulagið byggir á Aðalskipulagi Ölfuss, 2010-2022, þar sem svæðið er skilgreint undir 07-Bolaöldur og Jósefsdalur þar sem gert er ráð fyrir aðstöðu fyrir ökugerði fyrir ökukennslu, vélhjólaakstursíþróttir og vélsleðaíþróttir á veturna. Svæðið er um 650 ha og gert ráð fyrir blandaðri landnotkun, þ.e. opnu óbyggðu svæði og svæði til efnistöku.

Deiliskipulagið nær yfir tæpa 65 ha svæði, af um 650 ha svæðinu. Innan 65 ha afmörkunarinnar er framkvæmdasvæði Ökukennarafélag Íslands, ÖÍ, um 25 ha og Vélíþróttaklúbbsins VÍK, um 11 ha. Gert er ráð fyrir mögulegri stækkun á deiliskipulaginu sem er í samræmi við umfang svæðisins í Aðalskipulagi Ölfuss, 2010-2022. Innan byggingarreits, merktur 3.0, er heimilt að reisa vélhjólahöll, allt að 8160 m2, 68×120 m og með vegghæð allt að 10 m og mænishæð yfir jörðu allt að 14 m. Innan byggingarreits 3.1 er heimilt að reisa stjórnstöð og þjónustu- og viðgerðarhús, allt að 1000 m2 byggingu á einni hæð. Einnig heimilt að byggja kennslustofu í samræmi við reglugerð um ökugerði. Aðkoma er frá Suðurlandsvegi, við fyrirhuguð mislæg gatnamót sem sýnd eru í aðalskipulagi. Fráveita verður byggð upp í samræmi við reglugerðir þannig að ekki hljótist mengun frá starfsemi á svæðinu. Í greinargerð og í gögnum með deiliskipulaginu er farið yfir þá þætti sem fjalla ber um samkvæmt lögum. Skipulagsstofnun hefur tekið fyrir tilkynningu um matsskyldu og metið að framkvæmdin sé ekki matsskyld. Kærufrestur á úrskurði Skipulagsstofnunar er til 15. júlí 2013.

Til norðurs afmarkast svæðið af þjóðvegi nr. 1, Suðurlandsvegi og nær að afmörkuðu deiliskipulagi fyrir efnistöku við Bolaöldur. Markmið með deiliskipulaginu er annars vegar að finna varanlega aðstöðu fyrir ÖÍ þar sem sett er upp aksturskennslusvæði og ökuskóla fyrir suðvesturhorn landsins og Suðurland. Auk þess sem prófanir á ökutækjum fari þar fram. Hins vegar er verið að afmarka og byggja upp svæði fyrir VÍK en félagið áformar að reisa þar varanlega aðstöðu fyrir vélhjólaíþróttir. Einnig að afmarka og skilgreina svæðið sem hefur um nokkurra ára skeið verið notað til torfæru, motorcross og annars aksturs og þ.a.l. koma á markvissri stýringu fyrrgreindra umferðar um svæðið. Gengið verður frá svæðinu, ræktað upp með gróðri sem einkennir svæðið og manir og aðrar aðgerðir aðlagaðar landslagi, til að minnka sjónræn áhrif frá Suðurlandsvegi.

Deiliskipulagsgögn og eru á heimasíðu www.olfus.is undir framkvæmdaleyfi og skipulag einnig er hægt að nálgast gögnin hér fyrir neðan.

Deiliskipulagsuppdráttur

Greinargerð

Skýringaruppdráttur

Heildaruppdráttur

Skipulagslýsing hefur verið auglýst og kynnt. Einnig hefur verið opinn kynningarfundur þar sem fyrirhuguð tillaga að deiliskipulagi var kynnt.

Tillaga að deiliskipulagi liggur frammi til kynningar í Ráðhúsi Ölfuss, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn á skrifstofutíma frá 9-12 og 13-16. Tillagan verður einnig á heimasíðu Ölfuss og á heimasíðu Landmótunar sf. Tillagan er til kynningar frá 3. júlí 2013 til 14. ágúst 2013. Ábendingar og athugasemdir skulu vera skriflegar og hafa borist fyrir 14. ágúst 2013 til Sveitarfélagsins Ölfuss, b.t. skipulags- og byggingarfulltrúa, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn.

Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingarfulltrúi.