Íslenskur hópur sem Landmótun er hluti af vinnur alþjóðlega keppni um vistvæna endurhönnun Höfðabakka 9

Íslenskur hópur sem Landmótun er hluti af vinnur alþjóðlega keppni um vistvæna endurhönnun Höfðabakka 9

11. september 2013, var tilkynnt um úrslit í tveggja þrepa alþjóðlegri samkeppni um vistvæna endurhönnun Höfðabakka 9 á Ekobyggmässan í Stokkhólmi. Tillaga íslensks hönnunarhóps undir forystu VA arkitekta var valin úr átján tillögum sem bárust víða að úr heiminum. Keppnin var hluti af Nordic Built Challenge, keppni um vistvæna endurhönnun fimm norrænna bygginga.

Reitir fasteignafélag er eigandi Höfðabakka 9 sem er um 25.000 fermetrar. Þegar er hafin vinna við vistvæna endurhönnun en gert er ráð fyrir að áframhaldandi þróun svæðisins verði mótuð af vinningstillögunni þar sem vatn, gróður, skjólmyndun og dagsljós leika mikilvægt hlutverk í mótun svæðisins. Gert er ráð fyrir opnum regnvatnslausnum og auknum gróðri, þakgörðum á viðbyggingu og nýbyggingu auk þess að bogabyggingin verður klædd með glertrefjadúk. Eftir því sem uppbygging svæðisins þróast mun bílum á yfirborði fækka. Tímasetning stærstu framkvæmdanna mun ráðast af eftirspurn en nánari útfærsla verður þróuð af hönnunarhópi í samstarfi við Reiti og fyrirtæki á svæðinu.

Aðalmarkmið tillögunnar er að skapa vistvænt atvinnusvæði og styrkja vægi aðalbyggingar með því að móta fjölbreytt og aðlaðandi borgarumhverfi. Lögð er áhersla á að auka gæði umhverfisins, sem mun stuðla að aukinni vellíðan fólks sem þar starfar. Núverandi gata verður að fjölnota torgi þar sem fótgangandi og hjólandi vegfarendur hafa forgang. Vatn og gróður auka á rólegt og heilnæmt yfirbragð jafnframt sem aukinn gróður afmarkar svæðið og veitir skjól. Nýjar þakhæðir með aðgengi út á skjólsæla þakgarða með gróðri munu bæta starfsumhverfið. Gera má ráð fyrir að keppni sem þessi efli gerð vistvænna bygginga hér á landi og leiði til betra umhverfis í framtíðinni.

Verkís og Landmótun unnu að verkefninu með VA arkitektum. Fyrir hönd Landmótunar komu að verkinu Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Áslaug Traustadóttir landslagsarkitektar FÍLA.

Hugmyndasamkeppnin Nordic Built Challenge
Nordic Built Challenge er opin þverfagleg samkeppni um endurhönnun á einni byggingu á hverju Norðurlandanna. Keppnin á að hvetja til nýsköpunar og þróunar á sjálfbærum, framkvæmanlegum og skalanlegum hugmyndum um endurhönnun algengustu tegunda bygginga á Norðurlöndum í anda Nordic Built-sáttmálans.

Sigurvegarar seinni umferðar Nordic Built-keppninnar fá samning við eigendur bygginganna og tækifæri til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Í næsta mánuði verður endanlegur Norrænn sigurvegari keppninnar tilkynntur sem fær þar að auki eina milljón norskra króna í verðlaun.

Nordic Built
Nordic Built er eitt af sex kyndilverkefnum sem norrænu viðskipta- og iðnaðarráðherrarnir samþykktu í október 2011 og ýttu úr vör í tengslum við nýja samstarfsáætlun um atvinnu- og nýsköpunarstefnu þar sem áhersla er lögð á grænan hagvöxt. Norræna ráðherranefndin og Norræna nýsköpunarmiðstöðin fjármagna verkefnið en miðstöðin kemur einnig að framkvæmd verkefnisins í samstarfi við aðila í löndunum.

Þrír helstu þættir Nordic Built-áætlunarinnar koma til framkvæmda á tímabilinu 2012–2014. Hver þeirra felur í sér ýmsar aðgerðir en þær eru samtengdar og byggja hver á annarri.

Nánari upplýsingar:
Má finna hjá Trine Pertou Mach, heimasíða: http://www.nordicbuilt.org.