25.08.2014. Aðalskipulag Húnaþings vestra 2014-2026 var staðfest af Skipulagsstofnun þann 7. ágúst 2014. Þann 1. janúar 2012 sameinuðust sveitarfélögin Húnaþing vestra og Bæjarhreppur undir nafninu Húnaþing vestra. Skipulagið tekur til alls lands innan marka hins sameinaða sveitarfélags og er heildarstærð skipulagssvæðis um 3.017 km²
Meginmarkmið aðalskipulagsins er að sjá fyrir nægu landrými fyrir mismunandi starfsemi á skipulagstímabilinu. Stefnt verði að því að bjóða íbúum góð lífsskilyrði og laða að fólk til búsetu. Möguleikar á fjölbreyttu atvinnulífi verði auknir bæði í framleiðslu og þjónustu. Boðið verði upp á þjónustu, útivist og afþreyingu sem stuðli að eflingu svæðisins og alls landshlutans. Húnaþing vestra verði eftirsóttur áfanga- og dvalarstaður fyrir ferðamenn jafnt innlenda sem erlenda.
Skipulagsgögnin eru sveitarfélagsuppdráttur, þéttbýlisuppdrættir fyrir Hvammstanga og Laugarbakka, umhverfisskýrsla og greinargerð. Þá eru í greinargerðinni skýringaruppdrættir fyrir Borðeyri og Reyki auk þess er skipulagsáætlunin sett fram á nokkrum séruppdráttum til þess að skýra forsendur og helstu þætti aðalskipulagsins.
Vinna við aðalskipulag Húnaþing vestra hófst í upphafi árs 2013. Að þessari vinnu komu starfsmenn sveitarfélagsins, skipulags- og umhverfisráð og sveitarstjórn ásamt skipulagsráðgjöfum Landmótunar sf. þeim Yngva Þór Loftssyni, Óskar Erni Gunnarssyni og Margréti Ólafsdóttur. Hér fyrir neðan eru staðfest skipulagsgögn.