Árið 2010 vann Landmótun að breytingu á deiliskipulagi orlofshúsasvæðis VR í Miðhúsaskógi. Breytingin fólst í því að gera ráð fyrir tjald- og hjólhýsasvæði fyrir félagsmenn með það í huga að auka við fjölbreytileika í gistiaðstöðu á þessu vinsæla orlofshúsasvæði. Í framhaldi var svæðið hannað og verkið boðið út um síðustu áramót. Framkvæmdum lauk í júní s.l. en vegna mikilla þurrka í sumar var ákveðið að hlífa grasinu og fresta formlegri opnun til næsta vors. Leitast var við að nýta núverandi gróður á svæðinu til aðlögunar á jöðrum, stígum og vegum auk þess sem hluti af núverandi gróðri er óhreyfður. Nýr trjágróður til afmörkunar á rýmum var að uppstöðu íslenskar tegundir s.s. birki, víðir og reyniviður.
Á svæðinu eru 40 undirbyggð og tyrfð stæði með rafmagnstengingum fyrir tjaldvagna, húsbíla, felli- og hjólhýsi og auk þess viðbótar tjaldsvæði í birkilautum á jöðrunum. Innan svæðisins er fjölnota grasflöt, leikvöllur, körfuboltavöllur, grillsvæði og önnur sameiginleg aðstaða. Í um 50 m2 þjónustuhúsi er hreinlætisaðstaða með salernum, sturtum og aðstöðu fyrir uppvask, þvott og íverustaður umsjónarmanns.
Í framhaldinu voru gerðar miklar endurbætur á núverandi leiksvæði, sem er miðsvæðis á orlofshúsasvæðinu og er nefnt Klettaból eftir klettadranga sem afmarkar svæði að austanverðu. Þar er fyrir malarvöllur og mínigolf en sett voru upp ný leiktæki, hlaupaköttur og uppblásinn “ærslabelgur” Þá var lögð fimm brauta frisbígolfvöllur með tilheyrandi körfum og merkingum sem umlykur leiksvæðið. Lögð var áhersla á að halda sem mest í birkikjarrið sem afmarkar leiksvæðið og skilur á milli mismunandi leikrýma. Nýr stígur var lagður frá leiksvæðinu að tjald- og hjólhýsasvæðinu.
Að hálfu Landmótunar var skipulag og hönnun í höndum Yngva Þórs Loftssonar og Þórhildar Þórhallsdóttur í samstarfi við Tækniþjónustu Ragnars G Gunnarssonar. Ingi Gunnar Þórðarson byggingafræðingur hannaði þjónustuhúsið. Frá VR var Einar M. Nikulásson umsjónarmaður verksins og verktakafyrirtækið Loftorka sá um framkvæmdir.