Formleg opnun á Bolafjalli

Formleg opnun á Bolafjalli

Við erum enn í skýjunum eftir opnun útsýnispallsins á Bolafjalli.  

Pallurinn var formlega opnaður í byrjun september en á borðann klippti Pétur Vigfússon, íbúi í Bolungavík. Í humátt á eftir Pétri gekk ríkisstjórn Íslands í heild sinni 

Upplifunin að ganga loks út á pallinn eftir að hafa unnið að hönnun hans og skipulagsvinnu frá upphafi hugmyndar er hreint mögnuð. Miðað við það sem gengur og gerist þá hefur útsýnispallurinn á Bolafjalli gengið mjög hratt fyrir sig en hugmyndin spratt upp úr samstarfi Landmótunar og Sei Studio um áramótin 2018 og endaði sem vinningstillaga í samkeppni um útsýnispall á toppi Bolafjalls í byrjun árs 2019. Strax var haldið áfram með verkið og skipulagsteymi Landmótunar tók við þar sem deiliskipulagsvinna og breyting á aðalskipulagi var nauðsynleg. Á meðan á því stóð unnu Landmótun og Sei Studio með Eflu að fullnaðarhönnun pallsins, umhverfi hans og aðkomu. Árið 2020 skiluðu þau gögn Bolungarvík, hæsta styrk sem veittur hefur verið úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða eða 160 milljónum. Þá varð bara að finna ofurhuga til að byggja pallinn en til þess voru Eykt fengnir. 

Þrátt fyrir að framkvæmdaglugginn á toppi Bolafjalls sé stuttur á hverju sumri var pallurinn opnaður nú í september 2022. Það var ekki annað að sjá en Vestfirðingar, ráðherrar, hönnuðir og annað ferðafólk hafi tekið pallinum vel, þótt sumir hafi þurft að safna kjarki til að ganga út fyrir ystu brún fjallsins. 

Þótt pallurinn hafi verið opnaður og gestum sé frjálst að heimsækja hann og upplifa umhverfið á nýjan máta mun umhverfisvinna verða kláruð á næsta sumri og verkið þá vera fullklárað.